Bátar á þurru landi..

Hlutirnir eru smátt og smátt að byrja að færast í betra horf hér á Galveston eyju. Rétt eftir kvöldmat í gærkvöldi tókum við eftir því að komið var blátt ljós á litla 3G kortið sem venjulega er notað til þess að tryggja netsamband í Microsoft rútunni. AT&T höfðu verið með stóran hóp af tæknimönnum að vinnu frá því um helgina í að reyna að koma upp farsímasambandi. Við prófuðum tenginguna og hún var mjög góð svo að við fluttum okkur af gervihnattasambandinu sem við vorum að nota yfir á 3G tenginguna. Við þetta skánaði hraðinn hjá okkur til muna, en gervihnattasambönd eru ekki mjög stabíl og um er að ræða samnýtta bandbreidd, þ.e. þú deilir henni með öðrum notendum á svæðinu. Við tókum sérstaklega eftir því að sambandið var mjög slæmt þegar sjónvarpsfréttastofurnar eru með beinar útsendingar á svæðinu, en þeir nota samskonar búnað og borga extra gjald fyrir útsendingar á myndefni í gegnum tryggða bandbreidd (sekúndugjald í stað magngjalds sem við borgum - sem er um $5 á Mb). Eftir kvöldmat róaðist hjá okkur, enda útgöngubann enn í gildi milli kl. 18 og 06 á morgnanna.

Fimmtudagurinn var tekinn snemma, farið á fætur rúmlega sex og farið í kalda sturtu (maður þakkar fyrir að fá vatn og hugsar ekki um hversu kalt það er). Hitinn á daginn hefur verið um 26 gráður á Celcius og á næturnar er hann að fara niður í 18 gráður. Það var því kærkomið að geta þvegið af sér aðeins af svitanum sem frónbúi fær í svona veðri. Það fyndna er að Texasbúar tala um kuldalægð sem sé núna - þeir eru vanir að hafa yfir 30 stiga hita í September.

Það er búið að vera brjálað að gera hjá okkur í dag. Aðallega höfum við verið að aðstoða starfsfólk bæjarins, lögreglunnar og hótelsins í að skrá sig hjá FEMA, en það er forsenda þess að það geti fengið fjárhagslega aðstoð frá ríkinu. Um leið og það hefur skráð sig fær það skráningarnúmer sem það getur gefið upp á hótelum hér í Texas sem ríkið hefur gert samning við. Þá borgar ríkis gistinguna þar til búið er að gera við hús viðkomandi eða gera upp við það þær bætur sem það fær úr viðlagatryggingarsjóði. Einnig hefur verið nokkuð um það að starfsfólk bæjarins komi hingað til þess að fá aðgang að netinu, t.d. til þess að fara í tölvupóstinn sinn og þess háttar.

Ég tók mér smá hlé í dag og keyrði um svæðið austan og norðan við okkur. Ég tók hátt í 200 myndir sem ég setti inn á vefinn sem ég safna öllum myndum frá hamfarasvæðum á. Slóðin á hann er http://mydisasterblog.spaces.live.com/photos/cns!AD3C6ED5409990F6!595/. Þar eru einnig allar myndirnar sem við tókum í gær, en ég hafði einungis sett örfáar þeirra hérna inn á Moggabloggið þar sem ég var þá tengdur í gegnum gervihnött.

Það var vægast sagt skelfilegt að sjá hvernig mörg hús voru ansi illa farinn. Það sem maður þarf einnig að hafa í huga er að það eru ekki bara skemmdir á ytra byrði hússins sem sína eyðilegginguna. Sjórinn flæddi allt að 1-2 metra yfir eyjuna á tímabili þannig að mestu skemmdirnar eru í raun innandyra. Á þónokkrum stöðum mátti sjá fólk sem var byrjað að taka til inni hjá sér og þá var það búið að setja stóra hauga fyrir utan húsið með húsgögnum, teppum og öðrum munum sem voru ónýtir.

Ég keyrði síðan norðurmeð eyjunni og meðfram hafnarsvæðinu. Þar voru bátar uppi á þurru landi eins og hráviður. Einnig var þar stórt stæði fyrir bíla fólks sem er í siglingum með skemmtiferðaskipum um Karabíska hafið. Það má segja að þetta fólk eigi ansi beyglaða bíla þegar það kemur heim, því þeir höfðu greinilega fokið fram og tilbaka þegar fellibylurinn gékk yfir.

Þvínæst lá leiðinn að því svæði sem er næst brúnni frá meginlandinu. Það er svæðið sem ég talaði um í gær að gengi undir gælunafninu "destruction alley". Þar eru bátar út um allt upp á þurru landi. Það skýrist ekki af því að þeir hafi fokið þangað heldur vegna þess að það flæddi svo mikið yfir svæðið að þeir ráku þangað. Síðan fjaraði aftur út undan þeim og þeir urðu eftir. Margir þessara báta voru ansi flottar skútur eða hraðbátar þeirra ríku sem eiga sumarhús hér á eyjunni.

Flest húsin á þessu svæði voru ansi mikið skemmd. Bæði hafði flóðið eyðilagt undirstöðurnar og neðstu hæðina, en einnig var mikið um vindskemmdir á efri hæðunum. Aftur kom yfir mig sama tilfinning og daginn áður um það hversu mikið afl náttúran hefur og hversu lítið við mannskeppnan getum gert til að verja okkur gegn henni.

Það var samt gaman að sjá veitingastað sem er hér rétt hjá. Þar var búið að dúkaleggja borð fyrir utan og öllum viðbragðsaðilum boðinn ókeypis hádegismatur. Stór borði hékk fyrir utan og þar stóð texti eitthvað á þá leið "þið komuð hingað til að hjálpa okkur og við erum þakklát og viljum sýna það í verki". Sama hugsun er einmitt svo augljós hjá fólkinu sem hefur komið hingað til okkar, það hefur flest allt unnið dag og nótt frá því að fellibylurinn gékk yfir. Það að setjast hingað inn er oft í fyrsta skipti sem það sest niður allan daginn og það er oft stutt í tárinn þegar það þarf að gefa upp upplýsingar um hvað hefur skemmst hjá þeim. Maður fær líka oft kökk í hálsinn þegar það svo þakkar fyrir aðstoð okkar - sem manni finnst oft ansi lítilvægleg til móts við þá vinnu sem það er að leggja á sig.

Restin af deginum hjá okkur var svo að mestu leyti notuð í að aðstoða fleira fólk við að skrá sig. Það er nú samt farið að róast þónokkuð nú seinnipartinn, þar sem mjög margir af þeim sem eru á eyjunni og vinna hjá viðbragðsaðilum eru þegar búnir að koma til okkar. Samhliða skráningunni fer einnig dágóður tími í að sinna öðrum óskum um tænilega aðstoð frá bænum.

Nú er útgöngubannið komið á og því tími til að loka rútunni, fá sér að borða á hótelinu (sem eldar mat ofan í alla viðbragðsaðilana) og nota síðan kvöldið í að vinna sig í gegnum tölvupóstinn sem hefur hrannast upp meðan maður er hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þegar neyðin er stærst...

Hér verður fjallað um ýmislegt sem tengist náttúruhamförum og ýmsum björgunaraðgerðum.

Höfundur

Gisli Olafsson
Gisli Olafsson
Gísli hefur unnið í tölvugeiranum í 25 ár fyrir ýmis fyrirtæki hérlendis og erlendis. Núna vinnur Gísli hjá alþjóðadeild Microsoft við að aðstoða alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu Þjóðirnar, Rauða Krossinn, og Alþjóðabankann við að nýta tölvutækni betur í viðbrögðum við náttúruhamförum. Í sínum frítíma er Gísli meðlimur í Björgunarsveit Hafnarfjarðar, stjórnandi Íslensku Alþjóðabjörgunarsveitarinnar og fulltrúi Íslands í sérfræðingateymi SÞ sem samhæfir viðbrögð alþjóðasamfélagsins við stórum hamförum.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • VirtualEarth sample
  • Microsoft DART 064
  • Microsoft DART 048
  • Microsoft DART 041
  • Microsoft DART 037

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband