Færsluflokkur: Vísindi og fræði
12.6.2010 | 20:56
Ekki eins sterkur og haldið var...
Styrkur skjálftans hefur verið lækkaður niður í 7.5 og við það var flóðbylgjuviðvörun fyrir öll önnur svæði en Nicobar eyjurnar felld úr gildi. Þar getur þó hafa komið allt að 2.0m há bylgja. Á annan dag jóla árið 2004 var flóðbylgjan 10-15m á hæð og um 6000 manns létust.
Viðvörun um flóðbylgju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.11.2008 | 20:35
Misvísandi fréttir af jarðskjálftum
Það er ansi algengt að fréttamiðlarnir fjalli um jarðskjálfta sem eiga sér stað víða um heim. Oft er talað um sterka og snarpa jarðskjálfta, sem samt eru ekki nema 3-4 á Richter. Eftir flóðbylgjuna miklu 2005 er líka mjög algengt að fjallað sé um hætturnar á flóðbylgjum. Gott dæmi er að í þessari frétt er talað um að ekki sé talin ástæða til að gefa út viðvörun. Ástæðan er reyndar voða einföld. Sé staðsetning skjálftan skoðuð þá má sjá að hann átti sér stað á landi en ekki í sjó...
Það þarf líka ansi sterka skjálfta til þess að flóðbylgjur sem eru meira enn 10-20 cm háar myndist. Þar er oft horft á að styrkurinn sé amk. 7 á Richter. Flóðbylgjan mikla árið 2005 kom þegar jarðskjálfti upp á 9.1 á Richter átti sér stað. Það er mikilvægt að muna að á milli hverrar heillar tölu á Richter skalanum er 100 faldur munur í afli. Sem betur fer koma jarðskjálftar af þessari stærð ekki mjög oft. Síðasta "almennilega" flóðbylgja sem átti sér stað var 2007 þegar Salamónseyjar urðu fyrir skjálfta sem var nálægt 8 á Richter.
Á hverjum degi eiga sér stað amk. 10 skjálftar sem eru á bilinu 5-6 á Richter. Fæstir þessara skjálfta valda nokkru tjóni. Það er einna helst ef slíkur skjálfti verður þar sem hús eru mjög illa byggð og ekki er gert ráð fyrir skjálftum. Í fyrra var til dæmis skjálfti upp á 5.5 í einu af gömlu sovétlýðveldunum og hann orsakaði þónokkuð hrun húsa.
Að lokum langar mig að gefa fréttamönnum smá þumalputtareglu til að nota til að meta hvort jarðskjálfti sé áhugaverður eða ekki:
- Jarðskjálftinn á sér stað þar sem bær/borg er á innan við 60km fjarlægð
- Jarðskjálftinn á sér stað á innan við 60km dýpi
- Jarðskjálftinn er amk. 6 á Richter...þessa tölu má reyndar hækka upp í 7 í löndum sem oft verða fyrir jarðskjálftum því þar eru byggingar byggðar með tilliti til jarðskjálfta.
Auðvitað eru til undantekningar á þessari þumalputtareglu...en hún gefur manni samt góða hugmynd um hvort maður eigi að kíkja nánar eftir honum. Við sem störfum á alþjóðavettvangi við að bregðast við náttúruhamförum notum hana til að ákveða hvort við látum SMSið frá USGS sem við fáum öll í símana okkar eiga sig eða hvort við förum að skoða nánar hvað er að gerast.
Jarðskjálfti í Japan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.9.2008 | 23:35
Bátar á þurru landi..
Hlutirnir eru smátt og smátt að byrja að færast í betra horf hér á Galveston eyju. Rétt eftir kvöldmat í gærkvöldi tókum við eftir því að komið var blátt ljós á litla 3G kortið sem venjulega er notað til þess að tryggja netsamband í Microsoft rútunni. AT&T höfðu verið með stóran hóp af tæknimönnum að vinnu frá því um helgina í að reyna að koma upp farsímasambandi. Við prófuðum tenginguna og hún var mjög góð svo að við fluttum okkur af gervihnattasambandinu sem við vorum að nota yfir á 3G tenginguna. Við þetta skánaði hraðinn hjá okkur til muna, en gervihnattasambönd eru ekki mjög stabíl og um er að ræða samnýtta bandbreidd, þ.e. þú deilir henni með öðrum notendum á svæðinu. Við tókum sérstaklega eftir því að sambandið var mjög slæmt þegar sjónvarpsfréttastofurnar eru með beinar útsendingar á svæðinu, en þeir nota samskonar búnað og borga extra gjald fyrir útsendingar á myndefni í gegnum tryggða bandbreidd (sekúndugjald í stað magngjalds sem við borgum - sem er um $5 á Mb). Eftir kvöldmat róaðist hjá okkur, enda útgöngubann enn í gildi milli kl. 18 og 06 á morgnanna.
Fimmtudagurinn var tekinn snemma, farið á fætur rúmlega sex og farið í kalda sturtu (maður þakkar fyrir að fá vatn og hugsar ekki um hversu kalt það er). Hitinn á daginn hefur verið um 26 gráður á Celcius og á næturnar er hann að fara niður í 18 gráður. Það var því kærkomið að geta þvegið af sér aðeins af svitanum sem frónbúi fær í svona veðri. Það fyndna er að Texasbúar tala um kuldalægð sem sé núna - þeir eru vanir að hafa yfir 30 stiga hita í September.
Það er búið að vera brjálað að gera hjá okkur í dag. Aðallega höfum við verið að aðstoða starfsfólk bæjarins, lögreglunnar og hótelsins í að skrá sig hjá FEMA, en það er forsenda þess að það geti fengið fjárhagslega aðstoð frá ríkinu. Um leið og það hefur skráð sig fær það skráningarnúmer sem það getur gefið upp á hótelum hér í Texas sem ríkið hefur gert samning við. Þá borgar ríkis gistinguna þar til búið er að gera við hús viðkomandi eða gera upp við það þær bætur sem það fær úr viðlagatryggingarsjóði. Einnig hefur verið nokkuð um það að starfsfólk bæjarins komi hingað til þess að fá aðgang að netinu, t.d. til þess að fara í tölvupóstinn sinn og þess háttar.
Ég tók mér smá hlé í dag og keyrði um svæðið austan og norðan við okkur. Ég tók hátt í 200 myndir sem ég setti inn á vefinn sem ég safna öllum myndum frá hamfarasvæðum á. Slóðin á hann er http://mydisasterblog.spaces.live.com/photos/cns!AD3C6ED5409990F6!595/. Þar eru einnig allar myndirnar sem við tókum í gær, en ég hafði einungis sett örfáar þeirra hérna inn á Moggabloggið þar sem ég var þá tengdur í gegnum gervihnött.
Það var vægast sagt skelfilegt að sjá hvernig mörg hús voru ansi illa farinn. Það sem maður þarf einnig að hafa í huga er að það eru ekki bara skemmdir á ytra byrði hússins sem sína eyðilegginguna. Sjórinn flæddi allt að 1-2 metra yfir eyjuna á tímabili þannig að mestu skemmdirnar eru í raun innandyra. Á þónokkrum stöðum mátti sjá fólk sem var byrjað að taka til inni hjá sér og þá var það búið að setja stóra hauga fyrir utan húsið með húsgögnum, teppum og öðrum munum sem voru ónýtir.
Ég keyrði síðan norðurmeð eyjunni og meðfram hafnarsvæðinu. Þar voru bátar uppi á þurru landi eins og hráviður. Einnig var þar stórt stæði fyrir bíla fólks sem er í siglingum með skemmtiferðaskipum um Karabíska hafið. Það má segja að þetta fólk eigi ansi beyglaða bíla þegar það kemur heim, því þeir höfðu greinilega fokið fram og tilbaka þegar fellibylurinn gékk yfir.
Þvínæst lá leiðinn að því svæði sem er næst brúnni frá meginlandinu. Það er svæðið sem ég talaði um í gær að gengi undir gælunafninu "destruction alley". Þar eru bátar út um allt upp á þurru landi. Það skýrist ekki af því að þeir hafi fokið þangað heldur vegna þess að það flæddi svo mikið yfir svæðið að þeir ráku þangað. Síðan fjaraði aftur út undan þeim og þeir urðu eftir. Margir þessara báta voru ansi flottar skútur eða hraðbátar þeirra ríku sem eiga sumarhús hér á eyjunni.
Flest húsin á þessu svæði voru ansi mikið skemmd. Bæði hafði flóðið eyðilagt undirstöðurnar og neðstu hæðina, en einnig var mikið um vindskemmdir á efri hæðunum. Aftur kom yfir mig sama tilfinning og daginn áður um það hversu mikið afl náttúran hefur og hversu lítið við mannskeppnan getum gert til að verja okkur gegn henni.
Það var samt gaman að sjá veitingastað sem er hér rétt hjá. Þar var búið að dúkaleggja borð fyrir utan og öllum viðbragðsaðilum boðinn ókeypis hádegismatur. Stór borði hékk fyrir utan og þar stóð texti eitthvað á þá leið "þið komuð hingað til að hjálpa okkur og við erum þakklát og viljum sýna það í verki". Sama hugsun er einmitt svo augljós hjá fólkinu sem hefur komið hingað til okkar, það hefur flest allt unnið dag og nótt frá því að fellibylurinn gékk yfir. Það að setjast hingað inn er oft í fyrsta skipti sem það sest niður allan daginn og það er oft stutt í tárinn þegar það þarf að gefa upp upplýsingar um hvað hefur skemmst hjá þeim. Maður fær líka oft kökk í hálsinn þegar það svo þakkar fyrir aðstoð okkar - sem manni finnst oft ansi lítilvægleg til móts við þá vinnu sem það er að leggja á sig.
Restin af deginum hjá okkur var svo að mestu leyti notuð í að aðstoða fleira fólk við að skrá sig. Það er nú samt farið að róast þónokkuð nú seinnipartinn, þar sem mjög margir af þeim sem eru á eyjunni og vinna hjá viðbragðsaðilum eru þegar búnir að koma til okkar. Samhliða skráningunni fer einnig dágóður tími í að sinna öðrum óskum um tænilega aðstoð frá bænum.
Nú er útgöngubannið komið á og því tími til að loka rútunni, fá sér að borða á hótelinu (sem eldar mat ofan í alla viðbragðsaðilana) og nota síðan kvöldið í að vinna sig í gegnum tölvupóstinn sem hefur hrannast upp meðan maður er hér.
Vísindi og fræði | Breytt 19.9.2008 kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2008 | 22:57
Loftmyndir af Suður-Texas
Eitt af því sem er mikilvægt fyrir viðbragðsaðila eftir hamfarir eins og Ike er að hafa aðgang að loftmyndum teknum eftir að veðrið gengur niður sem sýna hversu umfangsmiklar skemmdirnar eru. Eitt af því sem kollegar mínir hjá Microsoft Virtual Earth teyminu gerðu var að fljúga vél með svokallaðri UltraCAM yfir þau svæði í Suður-Texas sem verst urðu úti. Í gær var svo öllum helstu viðbragðsaðilunum veittur aðgangur að þessum loftmyndum. Verið er að vinna í að útbúa aðgengi að myndum fyrir almenning og er vonast til að það náist fyrir helgi. Þegar sá aðgangur er orðinn virkur mun ég blogga um hann hérna.
Hér fyrir neðan er dæmi um loftmynd tekna af því svæði sem gengur undir gælunafninu "destruction alley", en þar láu bátar og hús eins og hráviður um allt.
17.9.2008 | 19:44
Frá Ground-Zero
Ég sit þessa stundina fyrir utan stjórnstöð almannavarna í Galveston. Er þar sem hluti af teymi frá Microsoft sem sent var á svæðið til þess að aðstoða. Var staddur á æfingu hjá Sameinuðu Þjóðunum í skóglendi í Noregi þegar kallið kom og tók því við um 15 tíma flug til Dallas og svo keyrði ég í 5 1/2 tíma í gærkvöldi/gærnótt til þess að komast á svæðið. Eftir því sem maður kom sunnar þá fóru áhrif Ike að verða augljósari. Á mörgum stöðum sunnan við Houston var lítið um bensín en sem betur fer tókst mér að fylla á bílinn eftir að hafa beðið um 45 mínútur á einni af fáum bensínstöðum á svæðinu.
Á leiðinni frá Houston til Galveston voru fáir á ferli aðrir en flutningabílar að koma með rafmagns- og símakappla, díselvélar og ýmislegt annað sem verið er að nota til þess að koma grunnþjónustu aftur á.
Lögreglan stoppaði alla sem reyndu að komast inn á sjálfa Galveston eyju. Sem betur fer höfðum við fengið sérstakt leyfi hjá FEMA og yfirmönnum almannavarna í Galveston til þess að koma með okkar fólk inn. Um leið og maður keyrði yfir brúnna sem tengir Galveston eyju við meginlandið fór maður að taka eftir eyðileggingunni jafnvel þó að um miðja nótt væri að ræða. Brotnir bátar og ýmislegt rusl var í vegakanntinum.
Um leið og maður kom inn á sjálfa eyjuna var augljóst hvílíkur kraftur hafði verið að verki. Hús höfðu splundrast, rafmagnsstaurar höfðu spænst upp og bílar og bátar láu eins og hráviður út um allt. Einnig var ekkert rafmagn á einstaka stað sem hafði díselvélar. Minningar frá því fyrr í sumar þegar ég fór á skjálftasvæðin í Kína fóru í gegnum hugan.
Þar sem klukkan var orðin 2 að nóttu þá lá leiðin að Holliday inn sem er beint á ströndinni út að Karabíska hafinu - alveg við varnarvegginn sem stóðst mest af álaginu frá flóðinu sem komst. Þetta hótel er við hliðina á San Luis hótelinu sem almannavarnir hafa notað sem stjórnstöð frá því áður en Ike skall á. Grunnurinn á hótelinu er gömul bygging frá sjóhernum og því byggt til að standast mikið álag. Þar stóðu flestir af sér óveðrið af þeim viðbragðsaðilum sem voru á svæðinu meðan Ike gékk yfir. Þegar ég kom að hótelinu var allt lokað og fór ég því að leita að leið inn. Innan við mínútu eftir að ég kom þangað kom lögreglan á svæðið og tékkaði á mér, enda útgöngubann í gildi. Ég skýrði út fyrir þeim ástæðuna fyrir því að ég væri þarna og fékk þá að halda áfram för minni óáreittur. Sem betur fer var hliðarhurð opin svo ég komst inn og gat vakið kollega minn sem var með lykla að herbergi fyrir mig. Herbergið var rafmagnslaust og ekkert starfsfólk til að búa um en ég var nú samt glaður að þurfa ekki að sofa í bílnum
Í morgun vaknaði ég og var glaður að sjá að vatn var á hótelinu svo hægt væri að þvo af sér smá af ferðalaginu áður en maður færi á fullt að vinna. Dagurinn var tekinn snemma - byrjuðum kl. 7 á því að vera í sambandi við almannavarnir á svæðinu. Ákveðið var að hitta þá um 9 leytið. Við nýttum því tímann um morguninn í að skipuleggja daginn og þau sem höfðu verið hér síðan um helgina fóru yfir hvað þau höfðu gert hérna hingað til.
Okkar verkefni hér hefur aðallega falist í því að koma tímabundnum netsambandi á fyrir almannavarnir. Microsoft er með stórar rútur útbúnar með tölvum og fjarskiptabúnaði sem venjulega eru notaðar til að halda sölukynningar. Undanfarin ár hafa þessar rútur verið sendar á hamfarasvæði til þess að koma á netsambandi og gefa fólki kost á að komast á netið, sérstaklega til þess að senda inn tilkynningar um skemmdir til FEMA og til þess að skrá sig í kerfi sem starfsmenn Microsoft skrifuðu fyrir Ameríska Rauðakrossinn og kallast Safe and Well (www.safeandwell.org). Ein af þessum rútum hefur verið fyrir framan San Luis hótelið frá því á mánudaginn og er þráðlaust net í henni sem er tengt í gegnum gervihnött við Internetið.
Fyrstu tvo dagana voru það aðallega starfsmenn Galveston sem nýttu nettenginguna til þess að koma upplýsingum til FEMA og annara viðbragðsaðila. Í gærkvöldi tókst að koma nettengingunni á bæjarskrifstofunni í gang og hafa þeir því flestir nýtt hana í dag. Í staðinn hefur verið stöðugur straumur hjá okkur af starfsfólki hótelanna tveggja (en þar búa flestir viðbragðsaðilar). Einnig hefur nokkuð verið um að íbúar sem fóru ekki af svæðinu hafa komið og skráð upplýsingar um sig og sína inn í kerfi FEMA og Ameríska Rauða Krossins.
Ég verð hér fram á sunnudag og mun reyna að setja fleiri myndir inn á bloggið svo að fólk fái smá hugmynd um það hvernig ástandið er. Ég mun einnig skrifa um hvað fleira við erum að gera eftir því sem dagarnir líða.
UPPFÆRSLA: Bætta við nokkrum myndum á http://gislio.blog.is/album/galveston__hurricane_ike_2008/ - mun setja fleiri þangað þegar netsambandið verður stabílla.
Fórnarlömbum Ike fjölgar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.2.2008 | 07:05
Fellibylir eða hvirfibylir
Í þessari frétt hjá mbl eru þeir því miður að ruglast á fellibyl (e: hurricane) og hvirfibyl (e: tornado). Fellibylir myndast yfir sjó og sækja styrk sinn í hita hafsins. Hvirfilbylir myndast (oftast) yfir landi þegar hitamunur er mikill milli heits lofts niður við jörðu og kald lofts í háloftunum.
Það er hins vegar skelfilegt að heyra um fjölda látinna í þessu veðri.
Hvirfilbyljir valda usla í suðurhluta Bandaríkjanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.2.2008 | 16:47
Meira af jarðskjálftunum í Afríku
Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá fulltrúum friðargæsluliðs SÞ sem er með bækistöðvar sínar í borginni Bukavu sem var í 20km fjarlægð frá upptökum skjálftans þá létu um 5 manns lífið þar skv. opinberum tölum. Enn er mjög á reiki hvernig ástandið er á svæðinu þar sem enn er verið að grafa fólk út úr húsarústum.
Jarðskjálftarnir tveir komu með stuttu millibili og sá síðari mjög nærri upptökum þess fyrri. Sá fyrri var 6.0 ár Richter og sá síðari 5.0 á Richter. Það má því segja að sá síðari hafi verið eftirskjálfti. Margir minni eftir-jarðskjálftar hafa komið á um 20 mínútna fresti frá því að sá stóri reið yfir.
Neyðarfundur verður með ríkisstjórn landsins og fulltrúum hjálparsamtaka nú með kvöldinu og má þá vænta frekari frétta.
Þrjátíu látnir í jarðskjálftum í Afríku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.2.2008 | 12:46
Öflugri jarðskjálfti en AP greinir frá
12 létust af völdum jarðskjálfta í Rúanda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.2.2008 | 11:49
Jarðskjálfti í Kongó/Rwanda
Ríkisútvarpið í Rwanda segir 23 hafa látist í vesturhluta Rwanda í jarðskjálftanum og um 250 manns hafi verið fluttir á sjúkrahús. Flestir létust þegar kirkja hrundi ofan á þá.
Tala látinna í Kongó er enn 2, en búast má við að hún hækki til muna þegar nánari upplýsingar berast af vetvangi.
Kivu vatn er þekkt fyrir jarðhræringar og einnig fyrir að oft losar það upp gastegundir sem geta verið hættulegar fólki. Í um 100 km fjarlægð frá upptökum skjálftans er einnig Gomu eldfjallið sem gaus mjög skaðlegu gosi fyrir um 8 árum síðan.
3.2.2008 | 11:38
Jarðskjálfti í Kongó
Klukkan 07:35 í morgun að íslenskum tíma eða 09:35 að staðartíma reið jarðskjálfti yfir Kongó í mið-Afríku. Jarðskjálftinn var um 6.0 á Richter og átti upptök sín um 10km undir yfirborði Kivu vatns og í um 20km fjarlægð frá Bukavu sem er höfuðborg Suður-Kivu héraðs í Kongó.
Jarðskjálftinn varði í um 15 sekúndur og hrundu allmörg hús í Bukavu. Þegar er vitað um 2 látna og tugi slasaðra. Meðal annars hrundi kirkja ofan á fólk sem var við messu í bæ skammt norðan við Bukavu. Rafmagn fór af svæðinu og eru upplýsingar því enn af skornum skammti. Einnig tefur það upplýsingaflæðið að þetta svæði í Kongó er á valdi uppreisnarmanna.
Mér þótti nokkuð merkilegt þegar ég fór að leita frétta af þessum jarðskjálfta að hans er hvergi getið í enskumælandi fjölmiðlum. Hins vegar tókst mér með hjálp news.google.fr og translate.live.com að finna þónokkra umfjöllun í frönskumælandi fjölmiðlum. Það virðist vera að aðilar eins og CNN, Reuters, BBC og fleiri séu ansi lengi að pikka upp fréttir ef þær gerast í landi sem er frönsku eða spænskumælandi. Ég tók einmitt einnig eftir þessu þegar jarðskjálfti reið yfir Chile fyrir um hálfu ári síðar. Þá tók það nokkra daga fyrir fréttir af honum að síjast inn í enskumælandi fréttaveiturnar.
Eftir því sem meira fréttist af svæðinu mun ég væntanlega blogga um ástandið.
Um bloggið
Þegar neyðin er stærst...
Færsluflokkar
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar