Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Annað skipti sem þessi tækni er notuð

Þetta er í annað skiptið sem þessi fyrirtæki aðstoða við að leita að týndum einstakling með því að nota þessa tækni. Fyrsta skiptið var í febrúar síðastliðnum þegar þekktur tölvunarfræðingur að nafni Jim Gray hvarf á skútu sinni sem hann sigldi út frá höfninni í San Fransisco. Jim var mjög virtur innan tölvugeirans, enda er hann talinn höfundur tækni sem liggur á bakvið hraðbanka og stórra gagnagrunna eins og þeirra sem notaðir eru í Google Earth og Amazon.

Sem leitarstjórnandi er áhugavert að sjá hvernig verið er að nýta tæknina til þess að framkvæma jafn flókna hluti eins og að leita að lítilli flugvél á stóru svæði. Það er einnig gaman að sjá hvernig stórfyrirtæki eru tilbúin að lána búnað sinn í svona leitir. Spurningin er bara hvenær þetta verður hægt við almennar leitir en ekki bara leitir að þekktum einstaklingum.


mbl.is Leitað að Steve Fossett með aðstoð Google Earth
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðvaranir við flóðbylgjum

Flóðbylgjur eru flókið fyrirbæri og margt sem þarf að hafa í huga þegar fjallað er um þær. Sé litið til þess atburðar sem gerðist í nótt þarf að taka nokkra þætti inn í.

Í fyrsta lagi varð mjög öflugur jarðskjálfti, eða um 8 á Richter, sem skók eyjurnar í tæpar 2 mínútur. Þegar jarðskjálfti af þessari stærðargráðu á sér stað á litlu dýpi (í þessu tilviki um 10 km) þá er ávalt hætta á því að flóðbylgjur geti skollið á. Það hvort flóðbylgjurnar séu miklar í nágreni skjálftaupptaka eins og í þessu tilviki eða hvort þær geti magnast og farið langar leiðir eins og við jarðskjálftan við Súmötru fyrir rúmum tveimur fer eftir aðstæðum.

Í nágreni skjálftaupptakanna, í bænum Gizo, er talið að um 500 hús hafi skemmst. Mörg hver af þessum húsum skemmdust í jarðskjálftanum skjálfum og má leiða líkum að því að fólk hafi verið fast í húsarústunum þegar flóðbylgjan skall á nokkru síðar. Þannig hefur flóðbylgjan hreinsað á haf út þær rústir sem jarðskjálftinn skyldi eftir sig. Á þessu svæði eru hús mörg hver hrörlega byggð úr bambus og öðrum við.

Mjög mikilvægt er að byggja upp vitund meðal fólks sem býr á jarðskjálftasvæðum að leita upp á við þegar öflugir jarðskjálftar finnast. Eins hefur oft verið nefnt það fyrirbæri að vatnið sogast út áður en flóðbylgjan skellur á. Allt eru þetta atriði sem fólk getur lært að meta sjálft og krefst ekki öflugra flóðbylgjuviðvaranakerfa. Dæmi um þetta er að þegar jarðskjálftinn mikli skall á í nágreni Súmötru á annan dag jóla fyrir rúmum tveimur árum þá flúðu frumstæðir íbúar Andaman eyja upp á hæðir og varð því enginn mannskaði á þeim eyjum.

Svona til að gefa fólki smá innsýn í það ferli sem fór í gang við jarðskjálftann þá er hér smá tímaröð (allir tímar GMT - Íslenskur tími):

20:42 Jarðskjálftinn á sér stað
20:52 USGS sendir frá sér upplýsingar um að jarðskjálfti hafi átt sér stað - áætluð stærð 7.7
20:55 Flóðbylgjuviðvörunarstöð Kyrrahafs sendir út viðvörun fyrir Salomons eyjar og PNG
20:56 Flóðbylgjuviðvörunarstöðin í Alaska sendir út viðvörun - strendur USA ekki taldar í hættu
20:58 USGS hækkar styrkleikamat í 7.8
21:08 GDACS sendir út hæsta stigs viðvörun (Red Alert) um jarðskjálfta
21:32 Flóðbylgjuviðvörunarstöð Kyrrahafs sendir út viðvörun fyrir allt Suður Kyrrahaf
23:31 USGS hækkar styrkleikamat í 8.0
04:05 Flóðbylgjuviðvörunum aflétt
05:22 Sérfræðingateymi SÞ (UNDAC) sett í viðbragðsstöðu


mbl.is Íbúar Salómonseyja segjast ekki hafa fengið neina viðvörun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar börn hverfa...

Við lestur fréttar eins og þessarar sest að manni ónotahrollur. Mín fyrstu viðbrögð voru þau að ræða við mín eigin börn um hættur þess að tala við ókunnuga og segja þeim að fara aldrei upp í bíl með ókunnugum.

Mér varð einnig hugsað til fyrirlestrar sem ég sótti á ráðstefnu um leitar- og björgunastörf í Norður Karólínu vorið 2002. Fyrirlesarinn var reyndur leitarstjórnandi frá lögreglunni í San Diego. Umræðuefnið var brottnám á börnum.

Á hverju ári eru tæp 800 þúsund börn tilkynnt týnd í Bandaríkjunum. Rúmlega 200 þúsund af þessum börnum eru numin á brott af fjölskyldumeðlimum (oft vegna forræðisdeilna). Rúmlega 58 þúsund börn eru árlega numin á brott af aðilum sem ekki tengjast börnum. 115 börn á ári eru fórnarlömb týpískrar "gíslatöku" þar sem barn er numið á brott og farið með fjarri heimili og það síðan myrt, krafist er lausnargjalds eða því haldið föngnu um lengri eða skemmri tíma. Dæmi um það síðastnefnda hefur mikið verið í fréttunum að undanförnu í tengslum við tvo drengi sem teknir voru og haldið föngnum, annar þeirra í nokkra daga en hinn í rúm 4 ár.

Fram kom í fyrirlestrinum sú skelfilega tölfræði að langflestir (76.2%) af síðastnefnda hópnum enda myrtir innan 3 klukkustunda frá því að barnið er numið á brott. Atvik eins og þessi á dögunum þar sem drengurinn hafði verið í gíslingu í 4 ár eru því undantekning. Einnig var fjallað um hversu mikilvægt er fyrir leitarstjórnendur að átta sig á því nógu snemma hvort möguleiki er á að barn sem tilkynnt er týnt hafi verið numið á brott.

Ef einhver möguleiki er á að barn sem er týnt hafi verið numið á brott er nefnilega nauðsynlegt að breyta því hvar og hvernig er leitað að barninu. Í stað þess að einblína að næsta nágreni þess staðar sem barnið týndist þarf nefnilega að hefja það sem við köllum slóðaleit í 50km radíus frá þeim stað sem brottnámið átti sér stað. Ástæðan er sú að sá sem nam barnið á brott fer oftast á afvikinn stað þar sem hann getur náð sínu fram ótruflaður.

Þegar ég sat þennan fyrirlestur fyrir tæpum 5 árum síðan varð mér hugsað til þess hvort við sem stjórnum leitum hér á landi myndum lenda í þessum aðstæðum fyrr eða síðar. Raunin varð sú að einungis tveimur árum seinna átti sér stað atvik hér á landi þar sem næstum kom til þess að við þyrftum að leita miðað við svona aðstæður. Hver man ekki eftir því atviki þegar maður á rauðum bíl náði að lokka stúlku í Kópavogi upp í bíl með sér og keyrði með hana á vegarslóða fyrir utan bæinn. Sem betur fer kom hræðsla í manninn þegar hann stoppaði bílinn og stúlkan náði að hlaupa í burtu. Í myrkri og við mjög erfiðar veðuraðstæður tókst stúlkunni til allrar hamingju að veifa niður bíl sem átti þarna leið framhjá.

Ég er persónulega ekki viss um að við hefðum nægilega fljótt skipt um leitarfasa og farið að leita alla slóða í nágrenni höfuðborgarinnar því ekki lá fyrir vitneskja um það að hún hefði verið numin á brott.

Annað sem kom fram í fyrirlestrinum er að sá sem nemur á brott barnið er í lang flestum tilfellum einhver sem býr nálægt heimili barnsins. Viðkomandi hefur séð barninu bregða fyrir, t.d. á leið í skóla eða íþróttir. Barnið þekkir ekki viðkomandi en hann hefur byggt upp fantasíur um barnið áður en sjálft brottnámið á sér stað. Mjög sjaldgæft er að brottnám sé algjörlega af handahófi.

Það eru sífellt að berast fréttir víðsvegar af landinu um barnaníðinga sem eru að reyna að tæla börn til sín, upp í bíla eða á afvikna staði. Því miður mun sá tími koma að við munum leita að barni sem hefur verið numið á brott. Eina sem við getum gert til að koma í veg fyrir það er að tala við börnin okkar og vara þau á alvarlegan hátt við þessum hættum og hvetja þau til að segja frá ef einhver reynir að tæla þau til sín.


mbl.is Gæsluvarðhald staðfest yfir meintum kynferðisbrotamanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styddu gott málefni þegar þú leitar á netinu

9. milljón barna eru flóttamennÍ heiminum eru 9 milljón börn flóttamenn. Flest þeirra búa við bágbornar aðstæður.

Nú getur þú á einfaldan hátt stutt það starf sem unnið er til að veita þessum börnum betri lífskjör. Það eina sem þú þarft að gera er að nota hina nýju leitarvél Microsoft þegar þú leitar að upplýsingum á netinu.

Þetta er allt mjög einfallt í notkun. Þú einfaldlega ferð á slóðina http://click4thecause.live.com/Search/Charity/Default.aspx og framkvæmir allar leitir þínar þaðan.

Fyrir hverja leit sem þú framkvæmir á þessari síðu þá mun Microsoft gefa pening til samtakana Nine Million sem eru regnhlífarsamtök á vegum Sameinuðu Þjóðana sem einblína á börn sem eru flóttamenn.

Að sjálfsögðu er þetta leið til þess að fá fólk til að prófa nýju leitarvélina hjá Microsoft, en það er þó ansi gott að geta stutt gott málefni á meðan maður prófar sig áfram.


Þennan dag fyrir 6 árum - jarðskjálfti upp á 7.6 í El Salvador

Leitarstarf í El SalvadorÞann 13. janúar 2001 skók jarðskjálfti upp á 7.6 á Richter El Salvador og Guatemala. Upptök jarðskjálftans var um 100 km SV af San Salvador, höfuðborg Guatemala. Jarðskjálftinn varði í um 40 sekúndur og fannst í mest allri mið-Ameríku.

Jarðskjálftinn átti sér stað kl. 17:35 að íslenskum tíma eða 11:35 að staðartíma. Í fyrstu voru fréttir af jarðskjálftanum mjög óljósar og umfang hans ekki þekkt. Eftir því sem leið á daginn fóru að berast fréttir um hrundar byggingar og miklar aurskriður.

Fjölmörg ríki hófu því að undirbúa að senda rústabjörgunarsveitir á vettvang. Þess á meðal var Ísland, sem setti Íslensku Alþjóðabjörgunarsveitina í viðbragðsstöðu. Rústabjörgunarteymi frá Kólumbíu, Guatemala, Hondúras, Frakklandi, Mexíkó, Panama, Spán, Tyrklandi og Venúsuela fóru á vettvang. Sameinuðu Þjóðirnar virkjuðu einnig allar sínar stofnanir á svæðinu og eins var sendur hópur sérfræðinga til þess að samhæfa aðgerðir alþjóðasamfélagsins á vettvangi.

Aurskriða í El SalvadorEftir að hafa haft samráð við SÞ og önnur lönd var ákveðið að bjóða ekki fram Íslensku Alþjóðabjörgunarsveitina í þetta sinn, þar sem sá tími sem tæki að koma henni á vettvang væri það langur að leitarstarf yrði að öllum líkindum að ljúka þegar hún kæmist á leiðarenda. Þetta reyndist hárrétt ákvörðun, því strax þann 15. janúar komu skilaboð frá El Salvador um að ekki væri þörf á fleiri alþjóðlegum sveitum. Ein helsta ástæða þess að leitarferlið var svona stutt var sú að flestir sem létust höfðu lennt í aurskriðum. Aurskriðurnar voru mjög þéttar og því lítið um súrefni í þeim. Síðasta manneskjan sem fannst á lífi eftir skjálftann fannst einmitt að morgni 15. janúar.

Þegar hreinsunarstarfi lauk voru alls 844 manns látnir, tæplega 3 þúsund slasaðir og rúmlega 1 milljón manns sem á einn eða annan hátt varð fyrir áhrifum af jarðskjálftunum. Mánuði seinna reið 20 sekúnda langur jarðskjálfti upp á 6.1 á Richter yfir sama svæði. 315 manns létust í þeim skjálfta.

El Salvador er ekki óvant því að fá sterka jarðskjálfta. Þeir koma að meðaltali á 20-30 ára fresti.


« Fyrri síða

Um bloggið

Þegar neyðin er stærst...

Hér verður fjallað um ýmislegt sem tengist náttúruhamförum og ýmsum björgunaraðgerðum.

Höfundur

Gisli Olafsson
Gisli Olafsson
Gísli hefur unnið í tölvugeiranum í 25 ár fyrir ýmis fyrirtæki hérlendis og erlendis. Núna vinnur Gísli hjá alþjóðadeild Microsoft við að aðstoða alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu Þjóðirnar, Rauða Krossinn, og Alþjóðabankann við að nýta tölvutækni betur í viðbrögðum við náttúruhamförum. Í sínum frítíma er Gísli meðlimur í Björgunarsveit Hafnarfjarðar, stjórnandi Íslensku Alþjóðabjörgunarsveitarinnar og fulltrúi Íslands í sérfræðingateymi SÞ sem samhæfir viðbrögð alþjóðasamfélagsins við stórum hamförum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • VirtualEarth sample
  • Microsoft DART 064
  • Microsoft DART 048
  • Microsoft DART 041
  • Microsoft DART 037

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband